Íþróttafélagið Nes - Íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum

Skráningar á æfingar fara fram á Sportabler.com/shop/nes

11.06.2012 21:18

Aðalfundur NES 11.júní 2012

Skýrsla stjórnar NES 

2011

Ágætu iðkendur, aðstandendur og aðrir velunnarar NES verið velkomin á þennan aðalfund félagsins. Hið 20. starfsár NES hófst eftir kosningu nýrrar stjórnar í maí 2011. 

Stjórn Íþróttafélagsins NES árið 2011 skipuðu:

-Petrína Sigurðardóttir-formaður

-Karen Ásta Friðjónsdóttir-varaformaður

-Katrín Ruth Þorgeirsdóttir-ritari

-Ingunn Rögnvaldsdóttir-gjaldkeri

-Bryndís Heimisdóttir-meðstjórnandi

-Lára María Ingimundardóttir-meðstjórnandi

-Gestur Þorsteinsson-meðstjórnandi 


Ásamt stjórn hefur verið starfandi foreldraráð sem er stjórn innan handar varðandi fjáraflanir og ferðir sem farnar eru á vegum félagsins. Hlutverk foreldraráðs er að tryggja að foreldrar geti með frumkvæði sínu og hugmyndum eflt íþróttastarfið og haft áhrif á aðstöðu og aðbúnað félagsins. Foreldraráð lýtur yfirstjórn stjórnar. Fimm foreldrar og tveir til vara eru skipaðir til eins árs í senn í foreldraráð.

Í foreldarráði NES árið 2011 sátu: 

-Svava Hafstein

-Gunnrún

-Laufey

-Kristinn

-Erna

-Guðveig

Ný stjórn hóf af krafti 20. starfsár félagsins í byrjun september með velsóttum kynningarfundi þar sem ný markmið, áherslur og stefna félagsins var kynnt, þar var m.a skerpt á reglum er varðar mætingar iðkenda á æfingar og þátttökurétti þeirra á mótum, reglur er varðar reykingar og áfengi, greiðslu æfingagjalda svo eitthvað sé nefnt. Markmið félagsins voru m.a. þau að koma Nes meira út í samfélagið (vera sýnileg í samfélaginu), koma Nes aftur á meðal fremstu félaga innan raða ÍF, efla félagsstarf Nes með mismunandi hittingum, finna betri æfingaraðstöðu fyrir fótboltann og sundið hjá eldri. Á þessum kynningarfundi voru einnig kynntir nýir þjálfarar NES en þeir voru Ingi Þór Einarsson kennari ráðinn til að sjá um sund yngri og eldri, Stefán Óskar Gíslason þjálfari ráðinn til að sjá um fótboltann, Þorgerður Jóhannsdóttir sjúkraþjálfari ráðin til að sjá um frjálsar og boccia eldri, Arna Arnarsdóttir Þroskaþjálfi ráðin til að sjá um frjálsar yngri og boccia yngri og eldri og Petrína Sigurðardóttir ráðin til að sjá um frjálsar yngri og boccia yngri. Síðar þetta ár bættist við ný grein hjá NES en það var Garpasundið, sem er ætlað fyrir 14 ára og eldri. Þjálfarinn sem var ráðinn í það heitir Birkir Þór Karlsson.


Starf íþróttafélagsins NES var öflugt á starfsárinu 2012 sem sést best á þátttöku félaga á æfingum og mótum sem eru haldin af ÍF og  NES.  Aldrei í sögu NES hefur félagið tekið þátt í jafn mörgum mótum og síðastliðið starfsár. 


Hjá félaginu æfðu um 70 manns á aldrinum 6 -60 ára, að staðaldri í sundi, fótbolta, frjálsum íþróttum og boccia. Jóhann Rúnar Kristjánsson er sá eini í NES sem æfir borðtennis en hann æfir í Reykjavík vegna aðstöðuleysis á Suðurnesjum. 


Æfingar hjá Nes eru fimm daga vikunnar og eru þar af tvær æfingar á viku í fótboltanum, bætt var við einni æfingu við á viku hjá yngri og eldri í sundinu og eru þar af leiðandi á æfingum tvisvar sinnum í viku. Frjálsar, boccia og Garpasundið eru með æfingar einu sinni í viku. 


Það sem hefur einkennt þennan vetur hvað mest er hinn mikli metnaður sem hefur orðið í félaginu. Þjálfarar hafa sýnt mikinn metnað og hvatt sitt fólk áfram og hefur það leitt meðal annars til þess að mikil vakning hefur orðið í félaginu öllu. Í sundhópnum  hefur t.d. iðkendum hefur fjölgað um helming sem og í fótboltanum. Í frjálsum og boccia hefur verið ágætis mæting og góður kjarni myndast og æfir af kappi. Garpasundið sem byrjaði um áramótin hefur slegið gjörsamlega í gegn og fjölmargir nýtt sér að fara í sund sem hafa ekki gert það áður. 


Stjórnin náði sínu markmiði með að finna betri æfingaraðstöðu fyrir sund eldri og fótboltann. Sundið hjá eldri fékk einn tíma á viku í Vatnaveröldinni og einn tíma á viku í sundlaug Akurskóla. Fótboltinn fékk að halda báðar sínar æfingar í Reykjaneshöllinni. Góð æfingaraðstaða skiptir öllu máli og höfum við sem betur fer verið heppin með aðstöðuna fyrir frjálsar og Boccia í sal Heiðarskóla. Eina sem við þurfum að bæta þar er tækjakostur fyrir frjálsar.


Mót sem NES tók þátt á starfsárinu voru eftirfarandi:

Fótbolti

25.26.maí Knattspyrnuvika Evropa, Fótbolti, Reykjavík

18.september 2011-Special Olympics Íslandsleikar í fótbolta, Reykjavík

26.september 201- Íslandsleikar í Fótbolta.

 9.des 2011- Jólamót NES í fótbolta. Þróttur/Vogum, Reynir/sandgerðir, Víðir/Garði og Öspin komu í heimsókn og tóku þátt með NES

17.maí 2012 Íslandsleikar í knattspyrnu í Reykjavík


Frjálsar íþróttir.

 19.-22.maí 2011-Æfingarbúðir ÍF í frjálsum Laugardalsvelli.

11 júní 2011- Íslandsmót í frjálsum, Laugardalsvelli.

18.september- Íslandsleikir í Frjálsum, Reykjavík.

22.-25. Sept. 2011- Íslandsleikir SO frjálsar, Reykjavík.

31. mars-1. Apríl 2012- Íslandsmót ÍF í frjálsum, laugardalhöll. 

9. Júní 2012- Íslandsmót ÍF í frjálsum utanhúss, Laugardalsvelli.


Boccia.

  25.-27. mars 2011-Íslandsmót ÍF, Hafnarfirði.

7.-9. Okt. 2011- Íslandsmót ÍF í einstaklingskeppni í Boccia, Vestmannaeyjum.

14. Des 2011- .Jólamót Nes fyrir allur aldurshópa. Innanfélagsmót

8. jan. 2012- Lionsmót og fyrirtækjamót í Boccia, Reykjanesbæ.

31. mars-1.apríl 2012-  Íslandsmót ÍF, Laugardalshöll.

28. apríl- 1.maí 2012- Hængsmót í Boccia, Akureyri.

11.-13.maí  2012- Norðurlandamót í Boccia, Laugardalshöll.


Sund

 8.okt. 2011- Erlingsmótið í sundi, Laugardalslauginni.

 5.-6.nóv. 2011- Æfingarbúðir ÍF í sundi, Ásvallarlaug.

23.nóv.2011- Íslandsmót í sundi, Laugardalslauginni.

28.des 2011- Jólamót Nes í sundi, Fjörður Íþróttafélag kom í heimsókn og keppti með NES.

8.jan.2012- Nýársmótið í sundi, Laugardalslauginni.

10.-11.mars 2012- Æfingarbúðir ÍF í sundi, Ásvallarlaug.

 30.-31.mars 2012- Íslandsmót ÍF í sundi, Laugardalslauginni.

19. Maí 2012- Asparmót í sundi, Laugardalslauginni.

9.júní 2012-Bikarmót íF í sundi, Ásvallarlaug


Borðtennis

31.mars-1.apríl 2011-Opna Slóvenska í borðtennismótið í Alaska.

      13.-15.maí 2011-Opna Hollenska borðtennismótið í Rotterdam.

21.-23.okt. 2011-Evrópumeistaramótið í borðtennis í Króatíu.

31.mars-1.apríl 2012- Íslandsmót í borðtennis,fór fram í ÍFR húsinu.


Sumarið 2011 voru þrír drengir valdir úr Nes til að keppa á Special Olympics í Aþenu þann 25. júní- 4.júlí 2011. Þetta voru þeir Sigurður Guðmundsson,Guðmundur Hreinn Markússon og Jakob Gunnar Lárusson. Sigurður og Guðmundur kepptu í fótbolta og komu heim með silfur. Jakob Gunnar keppti í frjálsum og kom heim með brons. Glæsilegur árangur hjá þessum drengjum. 


Eins og sjá má af upptalningunni hér að ofan sóttu NES-arar af kappi öll þau mót sem þeim stóðu til boða hvort sem það var á vegum ÍF, Nes eða annarra félaga. Þar stóðu Nes-arar sig með stakri prýði og voru margar medalíurnar sem koma heim í hús. Besta var þó að allir voru að bæta sinn tíma allverulega og hafa gaman af þessu. Mikil metnaður og gleði. Gaman var að fylgjast með hversu margir yngri iðkendur voru að taka þátt á mótum þetta starfsár í víðbót við hina eldri. Sum þeirra voru að stíga sín fyrstu skref að keppa fyrir hönd NES og stóðu sig einstaklega vel. 


Nes hélt jólamót í fótbolta, Boccia og sundi. Á þessu mótum fengum við góða gesti sem tóku þátt og voru þessi mót vel sótt bæði af iðkendum og aðstandendum og vel lukkuð. Stefnan er að hafa þetta að árvissum atburði. 


Einstaklingakeppni í boccia var haldinn í Vestmannaeyjum þann 7.-.9. okt 2011 og hafnaði hann Arnar Már Ingibjörnsson frá Nes í 1.sæti, glæsilegur árangur.  


Viss mót héldu sínu sessi sbr. Lions- og fyrirtækjamótið í Boccia. Það mót heppnaðist mjög vel og var vel sótt. Fyrir hönd Nes þökkum við kærlega fyrir veittan stuðning á því móti. 


Á Norðurlandamóti í Boccia áttum við tvo fulltrúa, Konráð og Davíð sem stóðu sig vel.


Æfingabúðir ÍF héldu sínu striki í Boccia, frjálsum og sundi  og sóttu nokkrir Nes-arar þær og stóðu sig með stakri prýði. Það sýnir m.a. vel hversu öflugt íþróttafólk við eigum. Einnig sýndum við það í Íslandsmóti í Boccia, sundi, borðtennis og frjálsum en þar voru Nes-arar að bæta sig vel í tíma, unnu 16 verðlaunapeninga og urðu Nes-arnir Konráð, Arnar Már og Vilhjálmur Íslandsmeistarar í sveitakeppni. Á sama móti í borðtennis var hann Jóhann Rúnar frá NES með 3 gull. Glæsilegur árangur þar. Þess ber að geta að Jóhann heldur til London þann 9. sept. 2012 á Paralympic í London og keppir þar í borðtennis. Við hjá Nes óskum honum góðs gengis og erum afar stolt af honum.


Einnig ber að minnast á það að ÍF hefur valið hvorki meira né minna en átta Nes-ara til að fara keppa fyrir Íslands hönd á tveimur mótum í sumar. Önnur ferðin er æfingar-og keppnisferð í fótbolta til Limerick á Írlandi og eru Sigurður G., Guðmundur Ingi, Jakob Gunnar, Guðmundur Markúsar og Jósef að halda utan til að keppa á þessu móti þann 19.-23.júní næstkomandi. Seinna mótið er Special Olympics mót í fótbolta sem verður haldið í Danmörku þann 28.júní-2.júlí næstkomandi. Frá NES fara Vilhjálmur, Ari og Eðvarð Sigurjónss. Stefán Óskar Gíslason fótboltaþjálfari okkar í NES mun fylgja báðum þessum hópum út. Þess ber einnig að geta að í sambandi við bæði þessi mót hefur orðið mikið og gott samband við íþróttafélagið Ösp og þá sérstaklega Ólaf eða Olla, eins og hann er gjarnan kallaður, og erum við í stjórn NES þakklát fyrir það samstarf og sendum Olla okkar bestu þakkir fyrir.


Annað starf

Eins og fram hefur komið fagnaði NES merkum tímamótum þann 17.nóvember síðastliðinn, 20 ára starfsafmæli. Í tengslum við það bauð NES öllum bæjarstjórnum á Suðurnesjum til að taka þátt í afmælismóti í Boccia og fagna að móti loknu með iðkendum, þjálfurum, stjórn, aðstandendum og öðrum velunnurum NES með hefðbundinni afmælisveislu. Allar bæjarstjórnir fyrir utan eina tóku þátt. Mótið var vel lukkað og afmælisveislan einnig. Nes fékk góðar og afmælisgjafir í tilefni dagsins og þökkum við veittan stuðning. Við í stjórn NES viljum bera fram þakkir enn og aftur til aðstandenda sem aðstoðuðu okkur þennan dag. Stór stund í starfi íþróttafélags.


NES hefur lagt mikið kapp á það að hafa virkt félagsstarf innan félagsins og lagt upp með að hafa hittinga einu sinni í mánuði, fyrir utan hefðbundnar æfingar. Á þessum hittingum hittast iðkendur, aðstandendur, stjórn og þjálfarar og gera sér glaðan dag saman. Lögð var áhersla að að hafa mismunandi hittinga þetta starfsár og segja má með sanni að það hafi tekist. Við fórum m.a. tvisvar sinnum í bíó, út að borða, héldum opið hús, héldum jólabingó og héldum diskótek. Þessir hittingar heppnuðust alveg einstaklega vel, mikið hlegið og haft gaman.


Fjáraflanir eru NES nauðsynlegar í starfi félagsins og eru stöðugt í þróun hvað er hentugast að taka inn hverju sinni og selja.  Fjáraflanir þetta starfsár voru með öðru sniði en undanfarin ár. Fyrir jól vorum við annarsvegar að selja jólakort, merkimiða, jólabók og kærleikstré og svo hinsvegar héldum við jólabingó. Það var vel sótt, gaf vel af sér og fengum við fjölda allan af fyrirtækjum sem styrktu félagið með vinningum á bingó-ið sem og sveitarfélagið Garður veitti okkur fría aðstöðu. Við þökkum kærlega fyrir veittan stuðning. Eftir áramót fór lítið fyrir hefðbundinni fjáröflun hjá iðkendum en þess í stað voru stjórnarmeðlimir á útopnu að senda inn styrktarbeiðnir hingað og þangað. Sú leit skilaði sér og sést það t.d. best á logo-auglýsingum sem verða á æfingabolum NES, sem eru rétt ókomnir úr prentun frá HENSON. Það skal þó tekið fram að önnur fyrirtæki/bæjarstjórnir hafa styrkt okkur á annan hátt sbr. Bláa Lónið, Sjálfsbjörg, Reykjanesbær, Garður, Sandgerði, Grindavík og fleiri. Við þökkum kærlega fyrir veittan stuðning.


Það er ánægjulegt að segja frá því að NES er loksins að ná takmarki sínu með "að galla alla upp" í félaginu. Nýjir gallar og bolir frá HENSON hafa verið hannaðir og eru gallarnir t.d. komnir í hús. Einhver smá seinkun varð á bolunum. Einnig er í pöntun sérhannaður sundfatnaður í merki Nes og sundhetta frá fyrirtækinu FINIS. Við látum vita á facebook um leið og þetta kemur í hús.


Þess ber að geta að Stjórn NES hefur lagt mikla áherslu að vera áberandi í samfélaginu og að það sé virkt samband við iðkendur og aðstandendur hvort sem það í gegnum síma eða email. Í vetur stofnuðum við t.d. nýtt email fyrir NES sem vonandi allir vita hvað er (nes.stjorn@gmail.com). Einnig hafa vonandi allir tekið eftir að við höfum verið mjög virk á netinu, bæði á facebook og á bloggsíðunni. Við teljum að þetta hafi tekist með ágætum og stefnan er að halda þessu áfram.


Æfingargjöld NES eru mikilvæg félaginu og þökkum við þeim sem hafa staðið í skilum varðandi þau en minnum um leið á þá sem skulda að borga þau sem allra fyrst.


Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka ykkur iðkendum kærlega fyrir veturinn. Þið hafið verið ykkur sjálfum, aðstandendum ykkar, þjálfurum og félaginu öllu til mikins sóma. Staðið ykkur einstaklega vel, sýnt mikinn metnað og dug. Haldið áfram á þessari braut. Þið eruð frábær.

Stjórn vill þakka þjálfurum NES sérstaklega fyrir öflugt og gott starf og mikinn metnað sem þíð hafið sýnt  í störfum ykkar á þessu starfsári. Stjórn vill líka þakka ykkur líka fyrir einstaklega gott samstarf og hlakkar til að starfa áfram með ykkur á komandi starfsári.

Ykkur aðstandendum viljum við einnig þakka gott samstarf og þann stuðning sem þið hafið veitt félaginu. Styrktaraðilar Nes og aðrir velunnarar þökkum við veittan stuðning.

Með þessum orðum lýk ég máli mínu fyrir hönd stjórnar NES.

Takk fyrir.

 

 

Flettingar í dag: 1637
Gestir í dag: 283
Flettingar í gær: 428
Gestir í gær: 78
Samtals flettingar: 212417
Samtals gestir: 29328
Tölur uppfærðar: 26.11.2024 14:17:36

Íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum

Nafn:

Íþróttafélagið NES

Afmælisdagur:

17 nóvember 1991

Staðsetning:

Suðurnes, Ísland

Um:

Lottónúmer NES er; 234. Við þökkum fyrirfram fyrir veittan stuðning

Tenglar