Íþróttafélagið Nes - Íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum

Skráningar á æfingar fara fram á Sportabler.com/shop/nes

Færslur: 2013 Janúar

16.01.2013 19:23

Hér má sjá dagskrá Reykjavík International Games 2013 (RIG 2013). Þarna kemur fram allar dagsetningar, staðsetningar og tímasetningar í öllum þeim íþróttagreinum sem verður keppt í á þessu móti. NES mun taka þátt í sundkeppninni á þessu móti (næstkomandi helgi). Þátttökugjald er 1000 kr. á einstakling (sem borgast á staðnum). Þátttakendur fá armbönd sem gildir sem aðgangseyrir inná báðar lokahátíðirnar sem verða haldnar í tengslum við þetta mót. Fyrri lokahátíðin verður haldin næstkomandi sunnudag, 20.janúar. Þá er RIG hátíð og svo sundlaugarpartý kl.19-22 í Laugardalslauginni. Seinni lokahátíðin verður haldin þann 27.janúar kl.19-23 í Laugardalshöllinni.

15.01.2013 16:11

Frá stjórn NES

Á síðasta stjórnarfundi barst stjórninni erindi vegna tímasetningu á fótboltaæfingum og gerð var athugasemd á breyttum áherslum hjá NES. Viljum við í stjórn NES gera svar okkar aðgengilegt fyrir alla iðkendur og aðstandendur innan NES þar sem fleiri hafa verið að spyrjast fyrir um fótboltann og líka til að fara yfir hver staðan er og hvað er framundan hjá NES. Hvetjum alla til að gefa sér smá tíma og lesa þetta yfir .
kveðja, stjórn NES.

 

Efni: Stjórnarfundi NES barst bréf frá aðstandanda iðkanda þar sem kom fram m.a. óánægja með tímasetningu á fótboltaæfingum á vegum félagsins. Málið var tekið fyrir og rætt og eru niðurstöður þessar:

Fyrst viljum við koma á framfæri þökkum fyrir bréfið og þeim ábendingum sem í því voru. Vegna ábendinga um tímasetningu æfinga í fótbolta vill stjórn NES koma því á framfæri að mikið hefur verið reynt núlíðandi vetur að fá æfingatíma sem hentar okkar iðkendum betur. Stjórn NES hefur rætt við Reykjanesbæ, íþróttafélög og aðra aðila sem koma að úthlutun æfingatíma í Reykjaneshöllinni.Allir hafa verið tilbúnir til að hlusta á rök okkar og verið sammála um að þessi æfingatími henti okkar iðkendum illa en þrátt fyrir það höfum við fengið sama svarið hjá þeim öllum þ.e. „ Það er ekki hægt að breyta æfingatímum á miðju tímabili.Þið verðið að reyna aftur næsta ár“. Stjórn NES ákvað þá að reyna að tala við þá aðila sem eru með æfingatímanna næst á undan þeim tímum sem NES er með en þeir aðilar voru ekki tilbúnir til að skipta um tíma við okkur. Er það miður, en ljóst er að við getum ekki krafist við einn né neinn að skipta við okkur um tíma. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta atriði og er þeirri vinnu hvergi nærri lokið. Í maí næstkomandi munu íþróttafélög leggja óskir um æfingatíma vegna æfingatímabilsins 2013-2014 í Reykjaneshöllinni og þurfum við þá að gera allt sem við getum til að tryggja okkar iðkendum betri tíma. Ákveðið hefur verið að tala við og senda opin bréf til þeirra sem úthluta tímum (t.d. til framkvæmdastjóra Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar) væri það okkur mikil aðstoð í því verki ef aðstandendur sæu sér fært að senda erindi og jafnvel opin bréf til sömu aðila til að færa rök að því af hverju núverandi tímasetningar henta ekki iðkendum NES. Stjórn NES fagnar og þiggur alla þá aðstoð sem fæst í þessu máli enda er þetta hagsmunamál okkar allra. Það er augljóst að við þurfum að láta í okkur heyra í meira mæli en áður til réttra aðila.

Stjórn NES fékk einnig ábendingu um að setja á æfingatíma í innanhúsfótbolta var því vel tekið og málið afgreitt. Ákveðið var að fara af stað og kanna hvort NES getur fengið aðstöðu einu sinni í viku, í einhverju íþróttahúsi í Reykjanesbæ, til að æfa fótbolta og yrði sá æfingatími fyrr en núverandi æfingartímar. Það er markmið númer eitt! Fótboltaþjálfari NES hefur samþykkt að sjá um þessar æfingar. Um leið og húsnæði liggur fyrir munu þessar æfingar hefjast. Stjórn NES þakkar frábæra ábendingu.

Í áðurnefndu bréfi var einnig bent á að stefna NES hefði breyst frá því sem áður var og snúist nú orðið of mikið um keppnir og keppnisferðir. Það er rétt að mun meira er um keppnir og keppnisferðir í dag hjá NES en áður var. En er það skoðun stjórnar NES að með því sé verið að mæta auknum áhuga innan félagsins á keppnum og keppnisferðum. Það eru margir að æfa með NES og stór hluti hópsins hefur mikinn áhuga á að keppa fyrir hönd síns félags. Hinsvegar er líka hópur innan NES sem vill ekki keppa og er það ávalt val iðkenda hvort þeir taka þátt í keppni eður ei. Æfingar NES ganga ekki eingöngu út á að æfa fyrir mót heldur eru þetta fyrst og fremst íþróttæfingar þar sem hver einstaklingur mætir til leiks á sínum eigin forsendum óháð því hvort hann vilji eða geti keppt fyrir hönd félagsins.

Þessi ábending varð til þess að rætt var á stjórnarfundi hvort að það væri ekki öruggt að NES væri ennþá að þjónusta alla iðkendur hvort um sé að ræða einstaklinga sem taka þátt í keppni eða þá sem taka ekki þátt í keppni. Niðurstaða stjórnar NES er að stjórnin telur að félagið sé enn að mæta þörfum allra, óháð því hvort sem um er að ræða iðkendur sem keppa eða ekki, enda sé NES fyrst og fremst íþróttafélag og miðar stjórn félagsins og þjálfarar allir starf sitt við það. Einstaklingsmiðun er í hávegum höfð innan NES. Mikill metnaður er fyrir hönd félagsins hjá bæði stjórn, þjálfurum og ekki síst iðkendum og hefur mikil áhersla verið lögð á að fá til félagsins menntaða og hæfa þjálfara enda hefur iðkendum NES farið mikið fram og fékk félagið og iðkendur þess nýlega mikið hrós fyrir miklar framfarir og aukin sýnileika félagsins í samfélaginu og innan aðildarfélaga ÍF, sem er afar jákvætt. Þess ber einnig að geta að á síðstliðnu 1 ½ ári hefur orðið miklar breytingar á starfsemi NES og telur stjórn það hafa verið til góðs en bendir á að verk umbóta er hvergi nærri lokið. Iðkendum hefur fjölgað, fleiri þjálfarar hafa gengið til liðs við NES, æfingartímum hefur fjölgað sbr. í sundi og fótboltanum og höfum við t.d. í fyrsta skipti í sögu félagsins getað boðið uppá svokallað Garpasund. Sem eru sundæfingar sérsniðnar að þörfum eldri iðkenda sem kjósa að fara í sund á eigin forsendum. Um er að ræða léttar æfingar í sundi hvort sem það snýr að því að fara bara ofan í vatnið (venjast því), læra að synda eða gera þær æfingar sem henta einstaklingnum hverju sinni. Ákvörðun stjórnar að bæta við fótboltaæfingu (með sama tilgang og Garpasund er), sem var fjallað um hér að ofan, er því bara til að bæta enn betur fyrir okkar iðkendur. Einnig er verið að skoða hvort hægt sé að auka úrval íþróttagreina innan NES.

Þessu öllu til viðbótar hefur NES lagt mikla áherslu á að efla félagsskap iðkenda og haldið mánaðarlega hittinga þar sem reynt er að gera eitthvað skemmtilegt saman (fara í bíó, halda diskótek, út að borða o.s.frv). Margt er svo framundan í vetur; skemmtilegar æfingar í öllum greinum keppnir, mót, keppnisferðalög innan lands og erlendis og áðurnefndir mánaðarlegir hittingar.
Að lokum vill stjórn NES þakka fyrir þessar ábendingar og óskar þess að allir geti sáttir við unað. Ef það er eitthvað sem vekur upp fleiri spurningar endilega hafið samband við stjórn NES ([email protected] eða í gegnum skilaboð á facebook NES).

Með kveðju, stjórn NES

  • 1
Flettingar í dag: 201
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 319
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 105720
Samtals gestir: 8269
Tölur uppfærðar: 2.2.2023 10:18:42

Íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum

Nafn:

Íþróttafélagið NES

Afmælisdagur:

17 nóvember 1991

Staðsetning:

Suðurnes, Ísland

Um:

Lottónúmer NES er; 234. Við þökkum fyrirfram fyrir veittan stuðning

Tenglar